Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Stjórnsýslukæra vegna úrskurðar tollstjóra um höfnun á niðurfellingu álags

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 19. nóvember 2015
Tilv.: FJR15060063/16.2.2

Efni: Stjórnsýslukæra [A] f.h. [B], vegna úrskurðar Tollstjóra.

Þann 22. júní 2015 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra [A], f.h. [B] móður hans, kt. […], vegna úrskurðar Tollstjóra dags. 20. apríl 2015 um höfnun á niðurfellingu álags.

Málavextir og málsástæður
:
[B], kt. […], og [C] sambýlismaður hennar, kt. […], töldu fram sameiginlega til skatts frá árinu 1995 til ársins 2005. Árið 2005 fékk [B] greiðsluáskorun frá Tollstjóra vegna vangoldinna opinberra gjalda [C] frá árunum 2001 til 2005. Samsköttunin var kærð til Ríkisskattstjóra árið 2005 og tekin til greina fyrir það ár. Að sögn sonar kæranda vissi kærandi lítið hvernig málum var háttað hjá sambýlismanni sínum fyrr en árið 2005. Handvömm hafi ráðið því að aðeins var farið fram á að samsköttun yrði felld niður árið 2005 en ekki fyrir árin á undan. Kærandi hafi þar með verið gerð ábyrg fyrir árunum 2001-2004. Árið 2005 hafi hún fengið greiðsluáskorun frá Tollstjóra og í framhaldi af því hafi hún gert samning um greiðslur af skattskuld sambýlismanns síns. Í dag standi einungis eftir dráttarvextir af skuldinni.

Kærandi fer fram á að endurútreikningur á meintum ofgreiðslum þar sem kæranda og sambýlismanni hennar hafi verið veittar rangar upplýsingar um samsköttun og ábyrgðir og handvömm hafi valdið því að samsköttun vegna áranna 2001-2004 hafi ekki verið kærð. Til þrautarvara verði felldir niður dráttarvextir vegna þessarar meintu sameiginlegu skattskuldar.

Umsögn Tollstjóra:
Að sögn Tollstjóra eru málsatvik þau að á fundi sona kæranda með starfsmönnum embættisins hafi þeim verið leiðbeint um að ef þeir teldu að móðir þeirra hefði verið ranglega samsköttuð yrði að beina erindi um leiðréttingu á samsköttuninni til Ríkisskattstjóra. Kæra aðila virðist að mati Tollstjóra byggja á þeim misskilningi að Tollstjóri hafi tekið ákvörðun um samsköttun aðila með stjórnvaldsákvörðun dags. 20. apríl 2015 og hana sé unnt að kæra. Erindi aðila þann 13. apríl 2015 hafi hins vegar snúið eingöngu að þrautarvarakröfu í kæru dags. 22. júní 2015, þ.e. að dráttarvöxtum og niðurfellingu þeirra. Því verði að takmarka umfjöllun Tollstjóra í umsögn við það atriði.

Í umsögn Tollstjóra kemur enn fremur fram að dráttarvextir séu lagðir við kröfuna í samræmi við fortakslaust ákvæði 1. mgr. 114. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Óheimilt sé að veita undanþágur frá álagningu lögboðinna dráttarvaxta og því sé ekki heimilt að fella niður þegar álagða dráttarvexti. Slík framkvæmd bryti í bága við jafnræðisreglu skatta- og stjórnsýsluréttar, sbr. 2. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þessu leiði að staðfesta beri ákvörðun Tollstjóra dags. 20. apríl 2015.

Forsendur og niðurstöður:
Fallist er á það með Tollstjóra að ráðuneytinu sé einvörðungu unnt að fjalla um þrautarvarakröfu kæranda, þ.e. um niðurfellingu á dráttarvöxtum, þar sem hinn kærði úrskurður Tollstjóra varðaði niðurfellingu dráttarvaxta vegna ábyrgðar á skattaskuld sambýlisfólks samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Ákvæði 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt eru afdráttarlaus að því er varðar gjalddaga, eindaga og vexti vegna opinberra gjalda og er enga heimild að finna í lögunum til að víkja frá áskilnaði þeirra um greiðslu dráttarvaxta vegna vangreiðslu opinberra gjalda. Þá leysir vanþekking skuldara á lagaákvæðum hann ekki undan skyldu til greiðslu dráttarvaxta, samkvæmt gildandi lögum, standi hann ekki skil á greiðslu skattkröfu fyrir eindaga hennar. Umrædd lagaákvæði veita þannig afar takmarkað svigrúm til töku matskenndra ákvarðana á ívilnandi hátt.

Með hliðsjón af 7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, telur ráðuneytið einungis heimilt að fella niður dráttarvexti ef unnt er að sýna fram á að um mistök hafi verið að ræða af hálfu innheimtumanns eða ríkisskattstjóra sem leitt hafi til þess að dráttarvextir hafi fallið á skattkröfu. Í greinargerð með 13. gr. frumvarps sem varð að vaxtalögum nr. 25/1987 (nú 7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu), sbr. þingskjal 564 á 109. löggjafarþingi 1986-87, er m.a. að finna eftirfarandi umfjöllun:
„Í þessu ákvæði er lagt til að skuldara verði ekki gert að greiða dráttarvexti ef um viðtökudrátt af hálfu kröfuhafa er að ræða. Til þess að um viðtökudrátt geti verið að ræða þarf skuldari að hafa bæði vilja og getu til að greiða og hann þarf að hafa gert kröfuhafa löglegt greiðslutilboð eða lagt féð inn á geymslureikning skv. lögum nr. 9/1978. Ákvæði þetta tekur einnig til þeirra tilvika er skuldara er rétt að halda að sér höndum um greiðslu, t.d. vegna vanefnda, eftir atvikum fyrirsjáanlegra vanefnda, af hálfu kröfuhafa.“

Ekki verður séð að framangreint eigi við í tilfelli kæranda. Með vísan til þess að gæta ber jafnræðis við innheimtu skattskulda, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, telur ráðuneytið að ekki séu skilyrði til niðurfellingar dráttarvaxta í málinu.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun Tollstjóra, dags. 20.4.2015, um að synja kröfu [B] um niðurfellingu dráttarvaxta vegna ábyrgðar á skattaskuld maka samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, er staðfest.

Fyrir hönd ráðherra








Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum